Author:
Guðmundsson Birgir,Ólafsson Jón Gunnar,Jóhannsdóttir Valgerður
Abstract
Í þessari grein er fjallað um rannsókn á viðhorfum íslenskra blaðamanna til hlutverks síns í samfélaginu og upplifun þeirra af utanaðkomandi þrýstingi á störf sín. Fjölmiðlaumhverfið á Íslandi hefur gengið í gegnum miklar breytingar á undanförnum árum sem hafa, eins og í öðrum löndum, breytt því hvernig fréttir eru búnar til, þeim dreift og hvernig lesendur nálgast fréttir og jafnframt vakið spurningar um hlutverk fjölmiðla. Vaxandi samkeppni um athygli fólks, áhrif netsins, samfélagsmiðla og áhrifamikilla tæknifyrirtækja hafa meðal annars leitt til fjárhagserfiðleika á íslenskum fjölmiðlamarkaði, gjaldþrota og uppsagna. Markmið rannsóknarinnar er að kanna hvort og þá hvernig þessar breytingar hafa haft áhrif á viðhorf blaðamanna til þess hvert þeir telja vera hlutverk sitt í samfélaginu og jafnframt hvort þeir telja utanaðkomandi þrýsting á dagleg störf sín hafa aukist. Rannsóknin felst í spurningakönnun sem lögð var fyrir blaðamenn vorið 2021 (n=239) og eigindlegum viðtölum við þrjátíu blaðamenn. Spurningakönnunin er hluti af alþjóðlegri samanburðarrannsókn, Worlds of Journalism Study (WJS), sem miðar að því að kortleggja starfsaðstæður blaðamanna, viðhorf og vinnuaðferðir þeirra. Niðurstöðurnar eru bornar saman við WJS könnunina frá árinu 2012 (n=209). Niðurstöður sýna að íslenskir blaðamenn leggja meiri áherslu á það nú en áratug áður að hlutverk þeirra sé fyrst og fremst að veita hlutlægar upplýsingar um það sem gerist í samfélaginu og að veita valdhöfum aðhald. Um leið er ljóst að þeir telja að utanaðkomandi þrýstingur á dagleg störf sín hafi aukist. Það á einkum við um blaðamenn á einkareknum miðlum, en síður um félaga þeirra á Ríkisútvarpinu.
Publisher
Institute of Public Administration and Politics - Icelandic Review of Politics and Administration