Author:
Ástþórsson Ólafur S.,Brattegard Torleiv
Abstract
Rannsóknaverkefnið Botndýr á Íslandsmiðum (BIOICE) hófst formlega árið 1992 en fyrsti leiðangur til gagnasöfnunar var farinn 1991. Meginmarkmið verkefnisins var að kanna magn og útbreiðslu dýralífs á hafsbotninum innan íslensku 200 mílna lögsögunnar. Það var unnið á vegum umhverfis og auðlindaráðuneytisins í samstarfi Náttúrufræðistofnunar Íslands, Hafrannsóknastofnunar, Háskóla Íslands og Sandgerðisbæjar. Í þessari grein er fjallað um umfangsmikið safn krabbadýra af ættbálkunum Lophogastrida og Mysida (áður Mysidacea, agnir á íslensku) sem safnað var með svokölluðum RP-sleða og síðan greint til tegunda og útbreiðsla, dýptardreifing og lífsferlar rannsakaðir í tengslum við umhverfisaðstæður eftir því sem gögn gáfu tilefni til.
Alls voru tegundagreind 30.605 dýr sem fengust á 276 af þeim 370 togstöðum sem teknar voru með RP-sleðanum á 20–3000 m dýpi. Alls voru greindar 50 tegundir, þrjár tilheyrðu Lophogastrida og 47 Mysida (sjá samantekt í 3. töflu). Þar af voru 25 tegundir sem ekki höfðu áður fundist innan íslensku efnahagslögsögunnar: Hansenomysis falklandica O. Tattersall, 1955; Hansenomysis nouveli Lagardère, 1983; Boreomysis arctica (Krøyer, 1861); Amblyops kempi (Holt & Tattersall, 1905); Amblyops spiniferus Nouvel & Lagardère, 1976; Amblyops tenuicaudus W. Tattersall, 1911; Amblyops trisetosus Nouvel & Lagardère, 1976; Amblyopsoides ohlinii (W. Tattersall, 1951); Paramblyops bidigitatus W. Tattersall, 1911; Paramblyops rostratus Holt & Tattersall, 1905; Dactylamblyops thaumatops W. Tattersall, 1907; Dactylerythrops bidigitatus W. Tattersall, 1907; Erythrops glacialis G.O. Sars, 1885; Parapseudomma calloplura (Holt & Tattersall, 1905); Pseudomma affine G.O. Sars, 1870; Pseudomma antarcticum Zimmer, 1914; Pseudomma islandicum Meland & Brattegard, 2007; Pseudomma jasi Meland & Brattegard, 1995; Pseudomma maasakii Meland & Brattegard, 2007; Pseudomma nanum Holt & Tattersall, 1906; Michthyops parvus (Vanhöffen, 1897); Michthyops theeli (Ohlin, 1901); Mysidetes farrani (Holt & Tattersall, 1905); Bathymysis helgae W. Tattersall, 1907; Mysidella typhlops G.O. Sars, 1872. Tvær af þessum tegundum, P. islandicum og P. maasakii eru nýjar fyrir vísindin og var þeim lýst af Meland og Brattegard (2007). Flestar tegundanna eru einnig þekktar frá djúpshafsslóðum í norðaustanverðu Norður-Atlantshafi, t.d. vestur af Bretlandseyjum og undan ströndum Noregs, en mjög lítið er vitað um líffræði þeirra fyrir utan það sem hér birtist.
Þrjár algengustu tegundirnar voru Erythrops serratus (11.095 dýr, 36,3% allra dýra í sýnum), Schistomysis ornata (2852 dýr) og Mysis mixta (2849 dýr). Þær þrjár tegundir sem fengust á flestum stöðvum voru Erythrops serratus (93 stöðvar, 33,9% stöðva sem agnir fengust á), Parerythrops obesus (48 stöðvar) og Pseudomma roseum (11 stöðvar). Sextán af tegundunum 50 fundust á færri en fimm stöðvum og sex tegundir fundust aðeins á einni stöð.
Tegundir voru flokkaðar eftir útbreiðslumynstri í fimm hópa: Sex tegundir fengust umhverfis allt Ísland, 32 tegundir fundust aðeins í hlýjum sjó sunnan við GIF-hrygginn (Grænlands-Íslands-Færeyjahryggur), tvær suðrænar tegundir höfðu tilhneigingu til að leita norður fyrir hrygginn, sjö norrænar tegundir fengust aðeins í köldum sjó norðan við hrygginn og þrjár norrænar tegundir höfðu tilhneigingu til að leita suður yfir hrygginn (130. mynd).
Samanlagður fjöldi tegunda jókst með dýpi og náði hámarki á 500–1000 m (30 tegundir) og 1000–1500 m (31 tegund) (130. mynd). Flestar tegundanna virðast hafa 1–2 ára lífsferil en hjá sumum kaldsjávartegundunum getur hann verið allt að 4–5 ár. Aðeins lítill hluti kvendýra var með fóstur í kviðpoka og þar sem það var tilfellið virtist hluti fóstranna oft hafa tapast og þá sennilega við söfnun og skolun sýna (4. tafla).
Við upphaf söfnunar í tengslum við BIOICE-verkefnið voru 33 tegundir agna þekktar innan íslensku efnahagslögsögunnar en rannsóknirnar sem hér eru kynntar hafa nú aukið þann fjölda í 58 tegundir (1. tafla og 130. mynd).
Publisher
The National and University Library of Iceland
Subject
Marketing,Organizational Behavior and Human Resource Management,Strategy and Management,Drug Discovery,Pharmaceutical Science,Pharmacology